Félagsmenn – réttindi og skyldur
Mjólkurframleiðendur geta orðið félagsaðilar að Auðhumlu leggi þeir að staðaldri inn mjólk í einhverja af afurðastöðvum félagsins. Upphæð aðildargjalds, sem greiðist við inngöngu í félagið, skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Aðildargjaldið rennur í stofnsjóð félagsaðila.
Sá sem óskar eftir því að gerast félagsaðili í Auðhumlu skal snúa sér til stjórnar félagsins með beiðni um aðild. Einstaklingar, þ.m.t. aðilar félagsbúa og þeir sem samskattaðir eru vegna mjólkurframleiðslu, og lögaðilar geta orðið félagsaðilar.
Félagatal skal geymt á skrifstofu félagsins. Eftir að stjórn hefur samþykkt aðildarumsókn skal nafni og heimilisfangi nýs félagsaðila bætt á félagatalið, um leið og þeir gerast félagsaðilar. Þá skal koma fram hvaða deild félagsaðilar tilheyra. Við nöfn þeirra sem hætta að vera félagar, skal skrá dag og ár, er þeir fara úr félaginu.
Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn lögaðila, sem eru félagsaðilar, geta óskað skráningar í félagatal, enda starfi þeir að verulegu leyti við framleiðsluna. Þeir skulu aðgreindir frá félagsaðilum í félagatali, með sérstakri merkingu.
Þeir einstaklingar, sem eru á félagatali, eru kjörgengir í stjórn félagsins og fulltrúaráð. Skráning í félagatal felur í sér rétt til setu á deildarfundum og á aðalfundum félagsins með málfrelsi og tillögurétti.
Hver félagsaðili fer þó aðeins með eitt atkvæði á deildarfundum.
Félagsréttindum halda félagsaðilar meðan þeir skipta við félagið með þeim hætti að senda því mjólk, uns lokið er afgreiðslu reiknings þess árs, er viðskiptum var hætt.
Félagsaðili getur sætt brottvikningu úr félaginu:
- Ef hann verður ber að því að spilla áliti félagsins eða vinna gegn hagsmunum félagsins.
- Ef hann er félagsmaður að yfirvarpi, en hefur mestöll viðskipti sín annarsstaðar.
- Ef hann sýnir félaginu ítrekuð vanskil.
Nýir viðskiptaskilmálar Auðhumlu svf. frá júní 2020:
Viðskiptaskilmálar Auðhumlu svf
Gæðaeftirlit úttekt:
Úttektarskjal 2020 - Gátlisti
Fjósaskoðunarvottorð:
Þar sem fram hafa komið athugasemdir vegna orðalags eyðublaðsins er varðar heimild til upplýsingaöflunar á gögnum hjá Matvælastofnun hefur það verið uppfært með tilliti til þeirra athugasemda. Þeim félagsaðilum sem þegar hafa undirritað eyðublaðið er frjálst að undirrita nýja útgáfu þess ef þeir kjósa að gera slíkt.
Heimild til upplýsingaöfkunar á gögnum hjá Matvælastofnun
Í tengslum við Gæðaeftirlit Auðhumlu óskar félagið eingöngu eftir skýrslum frá MAST er varða mjólkurframleiðslu (fjósaskoðunarvottorð). Þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunum eru nafn bónda, netfang, nafn lögbýlis, heimilisfang, starfsstöð, hver var viðstaddur úttektina, tilefni úttektarinnar, hvenær eftirlitið var framkvæmt, hvenær skýrslu var lokað, tímanotkun MAST við úttekt auk frávika og frests til úrbóta. Tilgangurinn er að Gæðaeftirlitið geti aðstoðað mjólkurframleiðendur við að greiða og bæta úr frávikum sem skráð eru í skýrslunum.
Framkvæmdin hefur hingað til verið sú að MAST tilkynnir ekki frávik eða íhlutandi aðgerðir til Auðhumlu fyrr en þau eru gerð opinber. Með hinu nýja verklagi er hægt að efla skilvirkni þegar MAST finnur að matvælaöryggi og/eða dýravelferð í mjólkurframleiðslunni. Við þetta má bæta að MAST tekur frumkvæði Auðhumlu til samvinnu sem leiða á til bættra aðstæðna mjólkurframleiðenda fagnandi.
Viltu gerast félagsmaður og þar með mjólkurinnleggjandi í Auðhumlu svf?
Umsóknareyðublað vegna aðildar í félaginu.
Stofngjaldið er 30.000 krónur samkvæmt samþykkt á aðalfundi Auðhumlu svf árið 2012.
Eyðublaðið má senda til skrifstöfu Auðhumlu sem viðhengi á netfangið mjolk@audhumla.is