Saga Auðhumlu

Um áramótin 2006–2007 tók MS/Auðhumla svf. til starfa í kjölfar sameiningar samvinnufélaganna MS og Auðhumlu. Á aðalfundi í mars 2007 var síðan ákveðið að félagið breytti nafni sínu í Auðhumla svf. Stofnun félagsins átti sér nokkuð langan aðdraganda en mikilvægustu skrefin voru stigin með breytingum sem urðu á KEA kringum aldamótin og síðan með sameiningu Mjólkursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna árið 2005.

Sögu Auðhumlu svf. má þó rekja lengra aftur. Á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldarinnar hafði skapast markaður fyrir mjólkurvörur í auknu þéttbýli á Íslandi. Mikill hugur var í bændum, þeir unnu að jarðabótum og ræktun túna, sem var forsenda þess að auka bústofninn, og smám saman fjölgaði mjólkurkúm á Suðurlandi, sem og í kringum Reykjavík og Akureyri. Árið 1927 voru sett lög á Alþingi sem heimiluðu að ríkissjóður greiddi fjórðung af stofnkostnaði mjólkurbúa og í kjölfar lagasetningarinnar voru stofnuð mjólkurbú víða um land, það fyrsta þegar árið 1927 og fleiri árið eftir, en þar á meðal voru Mjólkursamlag KEA og Mjólkurbú Flóamanna.

Upphafið að stofnun mjólkurbúanna og þróun mjólkuriðnaðar má rekja til þeirra breytinga sem urðu á samfélaginu með þéttbýlismyndun og þróun bændasamfélagsins frá sjálfsþurftarbúskap yfir í markaðsbúskap. Fyrsti vísir að mjólkuriðnaði í nútímaskilningi var stofnun hinna svokölluðu rjómabúa. Þróunin í lok nítjándu aldar leiddi til þess að bændur fóru að hugsa til þess hvernig þeir gætu komið afurðum sínum í betra verð. Þeir kynntu sér starfsemi mjólkurbúa í Danmörku og framleiðslu á smjöri og ostum, sem Danir seldu dýru verði til Englands. Þetta varð síðan til þess að hér á landi var stofnsettur mjólkurskóli þar sem mjólkurfræði voru kennd. Þetta var aldamótaárið 1900 og strax sama ár hóf fyrsta rjómabúið starfsemi sína. Rjómabú spruttu síðan upp á næstu árum og höfðu öll útflutning að markmiði. Þetta voru þó lítil bú sem áttu stutt blómaskeið fram að fyrra stríði og flest lögðust þau niður eftir 1918.

Þéttbýlismyndun og vaxandi markaður fyrir mjólkurvörur innanlands leiddi til þess að margir fóru út í framleiðslu. Þegar frá leið var samkeppnin hörð, framleiðsla óhagkvæm og oft misbrestur á því að nægjanlegt hreinlæti væri viðhaft við framleiðslu og dreifingu. Árið 1934 gripu stjórnvöld inn í þróun mála með lagasetningu sem varðaði framleiðslu og dreifingu mjólkur.

Mjólkursamsalan í Reykjavík var stofnuð árið 1935 á grundvelli laganna og var henni ætlað í krafti stærðar að dreifa mjólk á hagkvæman hátt en jafnframt að auka gæði mjólkurvöru og bæta þjónustu við neytendur. Að Mjólkursamsölunni stóðu Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamlag Ölfusinga auk annarra samlaga í nágrenni borgarinnar.

Allt frá fjórða áratug tuttugustu aldar og fram á þann sjöunda voru síðan stofnuð mjólkurbú og samlög vítt og breitt um landið. Flest urðu þau 19. Frá upphafi voru mjólkursamlögin framleiðendafélög og yfirleitt rekin á samvinnugrundvelli með staðbundinni aðild. Meginhlutverk þeirra var að taka við framleiðslu mjólkurbænda, vinna hana og setja á markað. Nokkur samlög voru þó rekin sem deildir innan kaupfélaga þar sem fleiri en mjólkurbændur áttu aðild. 

Mjólkurframleiðsla á Íslandi jókst allt fram undir 1980 en þá voru mjólkursamlög og afurðastöðvar starfandi í öllum landshlutum. Árið 1978 var mjólkurframleiðslan um 120 milljónir lítra en hafði numið ríflega 42 milljónum lítra árið 1928. Til að sporna við offramleiðslu var komið á kvótakerfi með nýjum búvörulögum árið 1985 og tryggði ríkisvaldið fullt verð til bænda fyrir ákveðið magn en áhætta af umframframleiðslu lagðist á afurðastöðvarnar. Í kjölfarið voru stofnuð Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði haustið 1985.

Samstarf mjólkursamlaga hafði verið með margvíslegum hætti en stofnun Osta- og smjörsölunnar árið 1958 markaði þó ákveðin tímamót. Þar var um að ræða fyrirtæki í eigu allra mjólkursamlaganna í landinu og sinnti það mikilvægu brautryðjandastarfi í allri vöruþróun og markaðsmálum. Innan Samtaka afurðastöðva var síðan unnið að nýju skipulagi þar sem áhersla var lögð á verkaskiptingu og sameiginlega stjórn til að hagræða innan mjólkuriðnaðarins. Við stofnun samtakanna voru aðildarfélögin 17. Stærst í þeim hópi voru Mjólkursamsalan í Reykjavík, Mjólkursamlag KEA á Akureyri og Mjólkurbú Flóamanna á Selfossi. Önnur voru hvarvetna á landinu. Á Vesturlandi og Vestfjörðum voru það mjólkursamlögin í Borgarnesi, Búðardal, á Patreksfirði og Ísafirði; á Norðurlandi mjólkursamlögin á Hvammstanga, Blönduósi og Sauðárkróki. Á Norðaustur- og Austurlandi mjólkursamlögin á Húsavík, Þórshöfn, Vopnafirði, Egilsstöðum, Djúpavogi og Höfn.

Miklar breytingar urðu í atvinnu- og viðskiptalífi Íslendinga á síðasta áratug tuttugustu aldar og leiddu þær m.a. af sér uppstokkun margra samvinnufélaga. Þegar kom fram á tíunda áratuginn var mikið rætt um framtíðina innan mjólkuriðnaðarins, einkum í ljósi alþjóðlegra viðskiptasamninga sem Íslendingar urðu  aðilar að og næstu árin var markvisst unnið að því að auka hagkvæmni mjólkurframleiðslunnar. Mjólkursamlag Vestur-Barðastrandarsýslu sameinaðist Mjólkursamlaginu í Búðardal árið 1993 og tveimur árum síðar var ákveðið að úrelda mjólkurstöðina í Borgarnesi. Þegar hér var komið sögu náðu samlagssvæði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og Mjólkurbús Flóamanna frá sunnanverðum Austfjörðum, suður um land og allt til Vestfjarða. Þróunin stefndi í færri og stærri kúabú og afkastameiri afurðastöðvar. Árið 1994 voru 14 mjólkurbú starfandi í landinu en mjólkurbændur voru tæplega 1400. Í lok árs 2003 voru afurðastöðvarnar níu en mjólkurbændur tæplega 900. Heildarinnvigtun mjólkur hafði hins vegar aukist úr 102 í 108 milljónir lítra á sama tímabili.

Þegar leið að aldamótum funduðu stjórnir Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og Mjólkurbús Flóamanna um aukið samstarf og leituðu leiða til frekari hagræðingar og stækkunar samlagssvæða. Mjólkursamlag Sölufélags Austur-Húnvetninga sameinast Mjólkursamsölunni árið 1999 og Mjólkursamlag Kaupfélags Vestur-Húnvetninga ári síðar.

Á sama tíma var unnið að breytingum á Kaupfélagi Eyfirðinga en innan þess var Mjólkursamlag KEA, stærsta samlagið á Norðurlandi. Árið 1999 keypti KEA Mjólkursamlag KÞ á Húsavík og sama ár var Mjólkursamlagi KEA breytt í hlutafélagið MSKEA. Það félag tók síðan yfir rekstur Mjólkursamlags KÞ í ársbyrjun 2000. Um sumarið árið 2000 var svo Auðhumla svf., félag mjólkurframleiðenda í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu, stofnsett. Norðurmjólk varð síðan til í desember sama ár við samruna MSKEA og framleiðslufélags í eigu Auðhumlu svf.

Í maí 2005 sameinuðust Mjólkursamsalan í Reykjavík og Mjólkurbú Flóamanna í eitt félag undir nafninu MS sfv. Rúmu ári síðar var starfsemi Mjólkursamlags Vopnafjarðar sameinuð starfsemi MS á Egilsstöðum. Síðar á sama ári sameinaðist Mjólkursamlag Ísfirðinga MS.

Með stofnun MS/Auðhumlu svf. í lok árs 2006 varð til félag framleiðenda sem nær yfir mestallt landið. Það skiptist í staðbundnar félagsdeildir og kjósa fulltrúar þeirra stjórn og varastjórn félagsins. Á aðalfundi í mars 2007 var ákveðið að breyta nafni félagsins og heitir það síðan Auðhumla svf. Það er félagslegur vettvangur og tekur við mjólk frá félagsmönnum en um leið er félagið eigandi fyrirtækja sem annast alla vinnslu á mjólk og dreifingu á fullunnum mjólkurvörum.

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242