Aðalfundur Auðhumlu svf. 2025
Aðalfundur Auðhumlu svf. 2025 fór fram í húsnæði MS að Bitruhálsi 1 þann 30. apríl sl.
Á aðalfundinum var ársreikningur Auðhumlusamstæðunnar 2024 samþykktur. Rekstrartekjur samstæðunnar námu rúmum 48,8 ma. króna sem er aukning um tæplega 3,0 ma. króna milli ára eða um 6,5%. Þessi hækkun er tilkomin vegna verðhækkana og söluaukningar, bæði á innanlandsmarkaði og erlendis. Rekstrargjöld samstæðunnar hækkuðu þó heldur meira eða um rúmlega 3,5 ma. kr. (8,0%) sem leiddi til niðurstöðu upp á 44,3 millj. kr. tap á samstæðunni. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var tæpur 2,8 ma. króna á móti tæpum 3,4 ma. króna árið áður. Fjármagnsgjöld samstæðunnar hækkuðu talsvert milli ára eða um tæplega 230 millj. króna og voru heildar fjármagnsgjöld samstæðunnar tæpir 1,1 ma. króna. Meginþorri skulda samstæðunnar er óverðtryggður. Mikilvægasta verkefnið framundan er að ljúka endurfjármögnun Mjólkursamsölunnar, sem er stærsta eign Auðhumlusamstæðunnar.
Hjá Auðhumlusamstæðunni var fjöldi ársverka 465 í árslok 2024 og fjölgaði þeim á árinu um 2. Laun og launatengd gjöld samstæðunnar námu um 6,7 ma. króna á árinu 2024 samanborið við 6,2 ma. króna á árinu 2023. Hækkunin á þessum lið milli ára kemur fyrst og fremst til vegna kjarasamningshækkana á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar nam 50,0% í árslok 2024 á móti 51,9% í árslok 2023.
Kosningar
Á aðalfundi er stjórn félagsins kosin til eins árs í senn. Allir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa. Á fundinum bauð Guðmunur Ómar Helgason í Lambhaga á Rangárvöllum sig einnig fram til stjórnar og hlaut hann kosningu.
Ný stjórn félagsins kom saman til fyrsta fundar strax að loknum aðalfundi og skipti með sér verkum. Ný stjórn félagsins er þannig skipuð:
- Ágúst Guðjónsson, Læk í Flóa, formaður,
- Þórunn Andrésdóttir, Bryðjuholti í Hrunamannarheppi, varaformaður
- Magðalena Jónsdóttir, Drangshlíðardal, A.- Eyjafjöllum, ritari
- Elín Margrét Stefánsdóttir, Fellshlíð í Eyjafirði, meðstjórnandi
- Ásvaldur Þormóðsson, Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði, meðstjórnandi
- Björgvin R. Gunnarsson, Núpi í Berufirði, meðstjórnandi
- Guðmundur Ómar Helgason, Lambhaga á Rangárvöllum, meðstjórnandi
Eftirfarandi hlutu kosningu í varastjórn félagsins:
- Sif Jónsdóttir, Laxamýri, S.-Þingeyjarsýslu
- Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti í Biskupstungum
- Linda Björk Ævarsdóttir, Steinnýjarstöðum, A.-Húnavatnssýslu
Annar tveggja skoðunarmanna félagsins var kosinn til tveggja ára. Haraldur Einarsson á Urriðafossi í Flóa var endurkjörinn skoðunarmaður og sömuleiðis Geir Árdal, Dæli í Fnjóskadal sem hans varamaður. Fyrir var skoðunarmaður reikninga Baldur Helgi Benjamínsson, Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit og til vara Valgerður Kristjánsdóttir, Mýrum III í V.- Húnavatnssýslu.
Endurskoðandi Auðhumlu svf. var kosin Deloitte ehf. og fyrir hönd þess; Benóní Torfi Eggertsson og Guðmundur Örn Árnason.
Auðhumla
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.
Lesa meiraGæðaráðgjafar
Hans Egilsson: Sími 861-4775
Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772
Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397
Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770
RM rannsókn: Sími 450-1242