Stefna Auðhumlu
Auðhumla svf. er samvinnufélag í eigu 600 mjólkurframleiðenda um land allt. Félagið er rekið á samvinnugrundvelli með takmaraðri ábyrgð samkvæmt lögum um samvinnufélög nr. 22/1991. Félagssvæði Auðhumlu nær yfir allt Ísland að undanskildum Skagafirði. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess er að taka við mjólk frá félagsmönnum og umbreyta í mjólkurafurðir sem seldar eru á markaði á Íslandi og erlendis. Þá er félaginu heimilt að reka hverja þá starfsemi sem gæti dregið úr rekstrarkostnaði félagsins og verið til hagræðis og styrktar fyrir félagið og félagsmenn þess. Félaginu er meðal annars heimilt að fela utanaðkomandi aðila hluta af verkefnum sínum. Tilgangi sínum hyggst félagið ná meðal annars með því að:
- Reka afurðastöðvar (mjólkurbú).
- Stunda öflugt og skilvirkt sölu- og markaðsstarf með framleiðsluvörur félagsins og aðrar vörur eftir því sem við á.
- Vera aðili að Mjólkursamsölunni ehf.
- Vera aðili að Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
- Leiðbeina félagsmönnum um meðferð mjólkur.
- Annast flutninga í eigin þarfir, fyrir félagsmenn og aðra.
- Nýta þekkingu og aðstöðu félagsins til að skapa því aukinn arð af starfseminni innanlands sem utan.
Félagið er með höfuðstöðvar að Austurvegi 65, Selfossi.
Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf. með 80% eignarhlut. Mjólkursamsalan er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og leiðandi fyrirtæki í matvælaiðnaði á Íslandi. Hlutverk félagsins er að taka við mjólk frá eigendum sínum og umbreyta í hollar og góðar mjólkurafurðir í takt við þarfir neytenda.