1. mars 2024

Fituinnihald mjólkur

Hátt fituinnihald í mjólk er mikilvægt, bæði fyrir afkomu bænda, en einnig fyrir afurðastöðvarnar. Hægt er að hafa áhrif á fituinnihald mjólkur með kynbótum, en það er hægvirk aðgerð. Til styttri tíma litið er bætt fóðrun einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að auka fituinnihald mjólkurinnar.

Bætt fóðrun felst í breytingu á samsetningu fóðurs, vanda vel til verka í heyskap og velja rétt kjarnfóður miðað við heysýnaniðurstöður hverju sinni. Eitt besta verkfæri bóndans eru einmitt heysýnaniðurstöður og ættu allir bændur að láta greina fyrir sig heyið.

Mikil áhersla er oft lögð á meiri afurðir, en það getur verið erfitt að halda uppi góðu efnainnihaldi mjólkur samhliða aukinni nyt.

Byggingarefni fyrir mjólkurfitu eru aðallega edik- og smjörsýra úr vambargerjun, fita úr fóðri og holdniðurbrot. Af þessu þrennu er það edik- og smjörsýrmyndun við vambargerjun sem hefur mest að segja. Jafnvægi í vömbinni er afar mikilvægt þegar kemur að mjólkurfituframleiðslu. Vambarjafnvægi fer mikið eftir því hvort nægt tyggiefni sé í gróffóðrinu og af hlutfalli sterkju og trénis. En tréni er það sem heitir NDF á heysýnaniðurstöðublöðunum. Aukið NDF í fóðri eykur fituinnihald mjólkurinnar, en próteinið á það til að lækka. NDF í gróffóðri á helst að vera 480-520 gr/kg þurrefnis (þe.).

Mikilvægustu þættirnir í gerð gróffóðurs, sem hafa jákvæð áhrif á fituinnihald mjólkur, eru gott trénisinnihald, góður meltanleiki (sem gefur gott orkuinnihald) og verkun gróffóðursins.

Passlegt og gott trénisinnihald í fóðri fæst með því að bjóða plöntunum gott aðgengi að næringarefnum, þá geta plönturnar vaxið og myndað tréni sem hefur einnig góðan meltanleika. Bændur finna fyrir pressu að slá mjög snemma til að meltanleikinn í fóðrinu falli ekki, þannig að heyin verði orku- og próteinrík. Ef það hinsvegar er gott aðgengi að næringarefnum geta menn slegið aðeins seinna, fengið meiri tréni og meira magn án þess að það hafi neikvæð áhrif á meltanleikann. Aðalatriðið er að fylgjast með og slá við skrið, á sumum plöntum má sjá í punt og öðrum plöntum má finna vel fyrir puntinum – þá er komið gott tréni, og ef aðgengi að næringarefnum hefur verið gott, vel borið á, þá er meltanleikinn ekki fallinn á því stigi.

Með háum meltanleika í fóðrinu fáum við betra át, hinsvegar hefur gróffóður með háum meltanleika yfirleitt lægra trénisinnihald (NDF). NDF telst lágt ef það er um eða undir 460 gr/kg þe. Ef NDF er lágt og iNDF (ómeltanlegt tréni) einnig er lágt, þá er mjög mikilvægt að stilla kjarnfóðurgjöfina miðað við hve gróffóðrið er “létt”, ef menn vilja ekki missa niður fituinnihald mjólkurinnar. Í slíkum tilvikum er afar mikilvægt að kýrnar hafi ótakmarkað aðgengi að gróffóðrinu og að gefið sé oft, þannig að kýrnar standi ekki í lengri tíma yfir sömu tuggunni.

Sykurinnihald gróffóðursins hefur mikið að segja fyrir lystugleika heysins og þar með einnig átið. Verkunin skiptir afar miklu máli hvað sykurinn varðar í heyinu. Sykurinn myndast í plöntunum við ljóstillífun, eftir sólríka daga eru plönturnar fullar af sykri. Hátt sykurinnihald eykur smjörsýrumyndun í vömb og hefur þannig jákvæð áhrif á fituinnihald mjólkurinnar. Hátt sykurinnihald fæst með góðum og hröðum þurrki, en það má einnig nota íblönduarefni við heyskapinn og skiptir þá þurrkunin ekki eins miklu máli, þó þurrkun sé af hinu góða. Kýrnar komast yfir að éta meira magn af þurru heyi heldur en blautu. Mesta átið næst ef fóðrið er með 35-45% þurrefni. Ef þurrara en 45% þá er farið að hægja á niðurbrotinu í vömbinni og átið minnkar. Ef sykur í heyjunum er undir 50 gr/kg þe. eða mjólkursýruinnihald er meira en 100 gr/kg þe. þá er hægt að bæta það upp að einhverju leyti með að gefa bygg til viðbótar, en bygg inniheldur auðleysta og aðgengilega orku. Nytháar kýr þola vel að fá 2 kg/bygg á dag, en nytlægri kýr ættu ekki að fá meira en 1-1,5 kg/bygg á dag.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef fituinnihald mjólkurinnar er í lægra lagi:

  • Gefa kjarnfóður með viðbættri fitu, en hafa skal í huga að slíkt kjarnfóður getur haft neikvæð áhrif á fríar fitusýrur í mjólkinni. Ekki er mælt með kjarnfóðri með viðbættri fitu ef vandamál eru með fríar fitusýrur í mjólkinni.
  • Tryggðu að gróffóðurátið sé nægjanlegt. Mokið oft frá kúnum og bjóðið þeim nýtt hey.
  • Áttu til betra verkað hey?
  • Áttu til þurrara hey?
  • Til að tryggja gott vambarumhverfi á kjarnfóður/gróffóðurhlutfallið í mesta lagi að vera 40/60.
  • Er nægt tréni í heyjunum?
  • Ef kjarnfóðurgjöfin er 10-12 kg/dag væri möguleiki að íhuga að skipta út hluta af sterkju fyrir sykurrófuhrat. Sykurrófuhrat hefur jákvæð áhrif á vömbina.
  • Er gróffóðrið saxað? Besta agnarstærðin/stubbalengdin er 40-50mm.
  • Ef gróffóðurátið er lélegt vegna ólystugleika er vert að íhuga að bæta melassa á heyið til að auka átið.

Í lokin er rétt að ítreka mikilvægi þess að láta efnagreina gróffóðrið, þannig er hægt sé að áætla kjarnfóðurmagnið sem þarf og tryggja að rétt kjarnfóður verði fyrir valinu miðað við gróffóðurgæðin.


Elin Nolsöe Grethardsdóttir
Gæðaráðgjafi Auðhumlu svf.
1.mars 2024

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242