Greiðslur til bænda 12. febrúar 2024
Í dag, mánudaginn 12. febrúar 2024 geta greiðslur frá Auðhumlu svf. til hluta mjólkurframleiðenda virst nokkuð óvenjulegar en það skýrist af því að greiðslurnar geta verið samsettar úr allt að þremur liðum hjá sumum mjólkurframleiðendum eftir því sem tilefni er til.
1. Hefðbundið uppgjör janúarmánaðar
Að grunni til eru greiðslurnar nú hefðbundið uppgjör á mjólkurinnleggi janúarmánaðar. Alls var innlögð mjólk janúarmánaðar á landinu öllu 12.642.316 lítrar eða 8,34% af greiðslumarki ársins 2024 sem er 151.500.000 lítrar. Mjólkurinnlegg í afurðastöðvar í janúarmánuði hefur trúlega aldrei verið meira og óhætt að segja að mjólkurframleiðsla ársins fari vel af stað.
2. Útjöfnun ársins 2023
Greiðslumark þeirra mjólkurframleiðenda sem ekki nýta sitt greiðslumark að fullu kemur til útjöfnunar til þeirra mjólkurframleiðenda sem framleiddu umframmjólk á árinu 2023. Þannig koma til útjöfnunar samtals 7.590.351 lítrar, þar af 6.935.093 lítrar til mjólkurframleiðenda á starfssvæði Auðhumlu svf. Framkvæmd útjöfnunar fer samkvæmt 11 gr. reglugerðar 933/2023 um stuðning í nautgriparækt þar sem segir: „Skal fyrst greitt fyrir fyrsta prótsentustig sem greiðslumarkshafi framleiðir umfram eigið greiðslumark og síðan annað prósentustig og svo áfram eftir því sem ónotað greiðslumark gefur tilefni til“. Útjöfnunin nemur alls 16,13% sem þýðir að mjólkurframleiðendur sem lögðu inn í afurðastöð allt að 16,13% af mjólk umfram sitt greiðslumark munu nú fá það greitt fullu afurðastöðvarverði. Á starfssvæði Auðhumlu svf. deilist þessi útjöfnun á 261 mjólkurframleiðanda.
3. Uppbætur á áður greidda umframmjólk ársins 2023
Þegar stjórn Auðhumlu svf. hefur tekið ákvörðun um greiðslur fyrir umframmjólk á hverjum tíma hefur skýrt komið fram að uppgefið verð á umframmjólk muni ekki lækka á yfirstandandi verðlagsári og að uppbætur verði greiddar eftir að lokauppgjör ársins hefur farið fram – ef forsendur verði til þess.
Á stjórnarfundi 08. febrúar 2024 var farið yfir útflutningsuppgjör ársins 2023 þar sem fram kom að útreiknað skilaverð til bænda sé 89,4 kr. á lítra. Í kjölfarið ákvað stjórn Auðhumlu svf. að raunveruleg umframmjólk ársins 2023, þ.e. eftir að útjöfnun hefur farið fram, skuli gerð upp á 90,0 kr. á lítra.
Umframmjólkurverð í janúar 2023 var 100 kr/l. sem þýðir að þeir mjólkurframleiðendur sem framleiddu umframmjólk í þeim mánuði eru að fullu uppgerðir hjá Auðhumlu svf. og engar frekari uppbætur koma á þá umframmjólk.
Umframmjólkurverð frá 1. feb. til 31. maí var 75 kr/l. sem þýðir að þeir mjólkurframleiðendur sem framleiddu umframmjólk á þessum tíma fá nú greiddar 15 kr/l. í uppbætur.
Umframmjólkurverð frá 1. júní til 31. desember var 85 kr/l. sem þýðir að þeir mjólkurframleiðendur sem framleiddu umframmjólk á þessum tíma fá nú greiddar 5 kr/l í uppbætur.
Á það ber þó að líta að við greiðslur á umframmjólk er tekið tillit til efnainnihalds hennar og gæðamælinga líkt og hefðbundið er.
Raunveruleg umframmjólk ársins 2023 eftir að útjöfnun hefur farið fram er 2.101.557 lítrar á starfssvæði Auðhumlu svf. Af þessum lítrum voru 46.273 lítrar framleiddir í janúar af framleiðendum sem höfðu selt frá sér allt sitt greiðslumark á síðasta kvótamarkaði ársins 2022 en lögðu inn sína síðustu lítra eitthvað fram á árið 2023. Það þýðir að uppbætur skv. ofangreindu verða nú greiddar á 2.055.284 umframmjólkurlítra og dreifast greiðslurnar á 78 mjólkurframleiðendur.
__________
Samkvæmt ofangreindu má sjá að mjólkurframleiðandi sem lagði inn mjólk í janúarmánuði og lagði inn umframmjólk á síðasta ári sem nam meira en 16,13% af greiðslumarki sínu mun fá samsetta greiðslu úr öllum þessum þremur liðum, þ.e. janúaruppgjör, útjöfnun ársins 2023 og uppbætur á áður greidda umframmjólk.
Því miður fylgja öllum þessum aðgerðum allnokkur pappír. Bókhaldslega er nauðsynlegt fyrir Auðhumlu svf. að kreditfæra áður greiddar greiðslur vegna umframmjólkur sem nú verður keypt sem mjólk innan greiðslumarks vegna útjöfnunarinnar. Afreikningar á janúarmjólkinni sem og uppgjör á útjöfnun sem slíkt fá hefur verið sent til ykkar saman í umslagi. Uppbætur á áður greidda umframmjólk munu berast til ykkar sem slíkt fá í sérumslögum. Umslagið/umslögin ætti/ættu að berast til ykkar með landpósti á næstu dögum.
Auðhumla
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.
Lesa meiraGæðaráðgjafar
Hans Egilsson: Sími 861-4775
Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772
Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397
Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770
RM rannsókn: Sími 450-1242