Hreinni framleiðslutækni hjá MS Akureyri
Mjólkursamsalan á Akureyri heldur uppi fjölbreyttri mjólkurvinnslu sem gefur frá sér vinnsluvatn. Frárennsli þess er losað í fráveitukerfi bæjarins og síðan veitt í sjávarviðtaka; því er mikilvægt að lágmarka mengun þess. MS Akureyri hefur unnið að gagngerum endurbótum á framleiðsluferlum, m.a. tekið í notkun nýja tækni til að endurvinna verðmæt næringarefni úr mysu, með það að markmiði að gera starfsemi MS Akureyri hagkvæmari og umhverfisvænni.
Rannsóknarstofa Línuhönnunar í Umhverfistækni (RUT Lh) hefur frá 2005 framkvæmt heildargreiningar á frárennsli MS Akureyri þar sem mengunarálag og tæringarálag vinnsluvatns var mælt og voru umhverfisáhrif losunar mysu í fráveitu metin sérstaklega. Mælingar frá ársbyrjun 2006 sýndu að mysulosun var stór hluti af heildarmengunarálagi frá MS Akureyri.
Nýlega eða í árslok 2007 framkvæmdi RUT Lh rannsókn á frárennsli vinnsluvatns MS Akureyri eftir að ný tækni til endurvinnslu mysu var tekin í notkun. Ítarlegar mælingar voru gerðar á rennsli, föstu efni, lífrænu efni og næringarefnum ásamt síritandi mælingum á hita- og sýrustigi til að meta tæringarálag frárennslis.
Niðurstöður fráveitugreininga RUT Lh sýna mikla og jákvæða breytingu í þá átt að minnka mengunarálag vinnsluvatns MS Akureyri, á sama tíma og veruleg framleiðsluaukning var hjá fyrirtækinu. Efnamengun vinnsluvatns hefur minnkað stórkostlega. Lífrænt efni mældist áður um 32 þúsund persónueiningar, en mælist nú um 5 þúsund pe, sem svarar til að lífræn efnamengun hafi minnkað um 84%. Jafnframt minnkar magn af föstu efni og næringarefnum um meira en helming allt upp í 75%, t.d. fyrir nitur.
Þessi jákvæði árangur er rakinn fyrst og fremst til þess að óunninni mysu er ekki lengur veitt í frárennsli og virðist hátæknibúnaður, sem MS Akureyri notar, ná að vinna allt prótein og stærstan hluta mjólkursykurs úr mysunni. Tæringarálag frárennslis hefur ennfremur minnkað verulega og dregið hefur úr vatnsnotkun.
Þessi ítarlega fráveitugreining sýnir að MS Akureyri hefur beitt hreinni framleiðslutækni með árangursríkum hætti til að minnka mengunarálag stórlega og mun jafnframt nýtast fyrirtækinu til að stefna nú enn lengra að hagkvæmari og umhverfisvænni mjólkurvinnslu með minni losun í frárennsli.
Auðhumla
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.
Lesa meiraGæðaráðgjafar
Hans Egilsson: Sími 861-4775
Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772
Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397
Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770
RM rannsókn: Sími 450-1242