27. nóvember 2013

Íslendingar í aðhaldi borða meiri rjóma og smjör

Íslendingar í aðhaldi kaupa
meira smjör, rjóma og osta
en nokkur dæmi eru um.
-lágkolvetnakúrinn og fjölgun ferðamanna leiðir til sölusprengingar
- nóg af íslensku smjöri og rjóma um hátíðirnar tryggt með minnkun annarra birgða og með því að nýta innflutta smjörfitu í nokkrar vinnsluvörur

Aukning í sölu á íslensku smjöri, rjóma og ostum í haust er án fordæma. Söluaukning í smjöri hefur til dæmis  verið yfir 20% á haustmánuðum. Við venjulegar kringumstæður er söluaukning mjólkurafurða yfirleitt á bilinu 1 – 3%.  
Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar* segir að það megi líkja þessu við sprengingu á markaðnum. „Þetta hefur verið tengt nýjungum í mataræði á borð við lágkolvetnakúrinn, breyttu viðhorfi til mettaðrar fitu í umræðu um næringarmál og loks sýna þessar tölur áhrif af fjölgun ferðamanna.  Mjólkuriðnaðurinn mætir þessum fréttum með því að ganga á birgðir af smjöri og ostum og öðrum vörum sem framleiddar eru með rjóma yfir þessa haustmánuði þegar mjólkurframleiðslan í landinu er í lágmarki og með því að hvetja bændur til aukinnar framleiðslu.    Til að treysta öryggismörk í birgðahaldi munu fyrirtæki í mjólkuriðnaði einnig í takmörkuðum mæli nýta innflutta smjörfitu nú í desember í nokkrar vinnsluvörur á borð við kálfafóður, nýmjólkurduft og osta sem fara mest í framhaldsvinnslu eða til matargerðar. Innflutt smjör er dýrara en innlent, en þess mun ekki sjá merki í verði þessara vara og uppistaðan í þeim verður eftir sem áður íslensk kúamjólk.  
Bændur tóku þegar við sér í haust eftir að Mjólkursamsalan hvatti þá til að auka framleiðslu til að mæta aukinni eftirspurn. Þeir hafa breytt fóðrun og aukið framleiðslu um 8% frá byrjun september og búa sig nú undir áframhaldandi aukningu í sölu á næsta ári þótt ekki sé gert ráð fyrir að hún verði jafn mikil og undanfarna mánuði.  Gert er ráð fyrir að hægt sé að fjölga kúm í landinu um 500 – 1.000 á milli ára.  Það ferli er þegar hafið og fyrirsjáanlegt að nægt framboð verður á markaðnum á næstu árum.
Í nágrannalöndum okkar hefur orðið vöxtur í neyslu á smjöri og ostum, en ekki í líkingu við það sem hér hefur gerst undanfarna mánuði. Það er augljóst að Íslendingar eru mjög ánægðir með íslenskt smjör, rjóma og ost. Framundan er mestu söluvikur ársins fyrir hátíðirnar og mjólkuriðnaðurinn undirbýr  sig fyrir þá vertíð. „Það verður alltaf nóg af íslensku smjöri og rjóma hér á markaði. Það er hluti af íslenska jólahaldinu“, segir Einar Sigurðsson, forstjóri MS.
Greiðslumark eða framleiðslukvóti kúabænda fyrir innanlandsmarkað árið 2014 hefur þegar verið aukinn í 123 milljónir lítra en var 116 milljónir lítra fyrir yfirstandandi ár. Mjólkursamsalan gerir ráð fyrir áframhaldandi söluaukningu á næstu árum þó hún verði ekki sambærileg við það sem sést hefur í haust.
Nánari upplýsingar gefur:
Einar Sigurðsson 569 2200
*Mjólkursamsalan er í eigu samvinnufélaga sem aðild eiga að allir kúabændur í landinu

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242