Mjólkuriðnaður í 90 ár
Þann 5. desember 1929 var fyrst tekið á móti mjólk í Mjólkurbúi Flóamanna svf. Félagið hafði verið stofnað árið áður.
Þá hóf Mjólkursamlag KEA sína starfsemi árið 1928 en var stofnað árinu fyrr.
Á þeim 90 árum sem liðin eru hefur margt breyst í samfélaginu s.s. samgöngur, rafvæðing og svo ekki síst tölvu- og tæknibreytingar af margvíslegu tagi. Gamla bændasamfélagið er nú að breytast hratt í að vera hátæknivæddar framleiðslueiningar þar sem aukin afköst, gæði og dýravelferð eru í hávegum. Við það fækkar framleiðslueiningum en jafnframt stækka búin hratt og hafa gert á umliðnum árum. Meðalbúið er þó lítið á heimsvísu og eru fjölskyldubú flest hver.
Með auknum kröfum um hagræðingu hefur íslenskur mjólkuriðnaður tekið miklum breytingum og þá sérstaklega á árunum 2005-2008 er Mjólkurbú Flóamanna svf og Mjólkursamsalan í Reykjavík voru sameinuð. Þá gengu Eyfirðingar og Þingeyingar í Auðhumlu árið 2007 og því er félagssvæði Auðhumlu allt Ísland að Skagafirði undanskyldum, en mjólkurframleiðendur í Skagafirði eru félagsmenn í KS. Í framhaldi af því var svo Mjólkursamsalan ehf. stofnuð sem rekstrarfélag íslensks mjólkuriðnaðar, í eigu tveggja samvinnufélaga þ.e. Auðhumlu svf. með 85% eignahlut og Kaupfélags Skagfirðinga með 15% hlut.
Samvinnufélagið sem hét í upphafi Mjólkurbú Flóamanna, skipti um nafn og heitir í dag Auðhumla.
Auðhumlunafnið
Auðhumla er frumkýrin samkvæmt norrænni goðafræði. Hún varð til þegar frost Niflheims blandaðist eldum Múspellsheims í ginnungagapi. Á sama tíma varð jötunninn Ýmir til og hann nærðist á mjólk Auðhumlu, en úr spenum hennar runnu fjórar mjólkurár. Að sögn nærðist Auðhumla á hrímsteinum sem hún sleikti. Dag einn er hún sleikti hrímsteinana birtist hár manns, þann næsta birtist höfuð og þriðja daginn maðurinn allur. Hann var kallaður Búri og var ættfaðir ásanna.
Auðhumla svf. hefur veigamiklu hlutverki að gegna m.a. sem móðurfélag MS. Auk þess leggja framleiðendur á félagssvæðinu sína mjólk inn hjá félaginu sem Auðhumla síðan endurselur til annarra aðila sem vinna sem vinna neysluvörur til sölu á markaði s.s. Örnu, MS, Bióbú og KS.
Auðhumla er því eini hrámjólkurmiðlarinn á markaðinum.
90 ár eru merkur áfangi í lífi hvers fyrirtækis og til að ná slíkum áfanga, taka þau breytingum og þroskast í takt við breytt samfélag. Íslenskur mjólkuriðnaður hefur svo sannarlega gert það í gegnum árin og horfir fram á veginn með jákvæðum hætti þrátt fyrir að honum er sótt á ýmsan hátt meðal annars með auknum innflutningi.
Út er komin bókin Auðhumla – bók um kýr og nautahald fyrri alda eftir Þórð Tómasson, fræðimann og frumkvöðul í uppbyggingu Skógasafns. Bókin er alhliða fræðirit um gamla verkmenningu, málfar og þjóðhætti sem tengjast kúabúskap og nautpeningi í gamla íslenska bændasamfélaginu. Með þessari bók er haldið til haga upplýsingum um verkmenningu sem er að hverfa og mikilvægt er að varðveita vitneskju um.
Auðhumla svf. studdi þessa útgáfu og munu framleiðendur fá sent eintak að gjöf á næstunni.
Færi öllum íslenskum mjólkurframleiðendum kveðjur á þessum tímamótum og vona að bókin verði ykkur til ánægju og fróðleiks.
Garðar Eiríksson framkvæmdastjóri Auðhumlu svf.
Auðhumla
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.
Lesa meiraGæðaráðgjafar
Hans Egilsson: Sími 861-4775
Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772
Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397
Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770
RM rannsókn: Sími 450-1242