Próteininnihald í mjólk
Innihald mjólkur er í meginatriðum vatn, fita, prótein og laktósi. Til að fá sem mest út úr mjólkurframleiðslu er mikilvægt að samsetning mjólkurinnar endurspegli nokkuð eftirspurn markaðarins hverju sinni. Verðefni í mjólk skipta máli fyrir afkomu bænda og afurðastöðva, góð verðefni ættu því að vera eitt meginmarkmiða bænda í búrekstri.
Bændur fá niðurstöður úr tanksýnum a.m.k. einu sinni í viku, þar geta menn fylgst vel með hvernig verðefnin í mjólkinni eru og hvort þau séu stöðug og góð, eða hvort ætti að grípa til aðgerða. Fóðrun skiptir höfuð máli þegar verðefni eru annarsvegar, en gott er að fylgjast með öllum mæligildum sem fást úr tanksýnum ásamt því að fylgjast með því hvernig mjólkurmagnið þróast.
Pistill um úrefni var skrifaður fyrir nokkru síðan - en mælt er með því að bændur fylgist vel með hvernig úrefnið er í mjólkinni hverju sinni. Úrefnið gefur mjög mikilvægar vísbendingar um hvort samræmi sé milli orku og próteins í fóðrinu. Þar af leiðandi geta menn svolítið horft til þess ef heilsufarið í hjörðinni er ekki eins og best er á kosið, til dæmis ef mikið er um að kýr detti niður í súrdoða eftir burð. Sumum finnst óþarfi að horfa á úrefnið í mjólkinni vegna þess að úrefnið hefur engin áhrif á mjólkurverðið, en rétt er að rifja upp að úrefnið hefur áhrif á frjósemi sem skiptir miklu máli í daglegum búrekstri. Einnig er gott að minna á að kýr framleiða úrefni til þess að losna við umfram prótein "úr kerfinu" og það er dýrt að kaupa próteinfóður til þess eins að láta kýrnar skola því út.
Prótein er mjög breytilegt í heyi, helstu próteingjafar, fyrir utan gróffóðrið, eru repja, soja, fiskimjöl og brugghrat. Í heysýnum fáum við niðurstöður sem segja okkur hvað PBV og AAT gildin eru í heyjunum, þetta er próteinsmatskerfi sem notað er á Norðurlöndunum. PBV segir til um próteinjafnvægi í vömbinni, það er jafnvægi á milli orku og leysanlegs próteins, við viljum helst að PBV sé 20-40 g/kg. AAT er nýtanlegt prótein, en það skiptist í torleyst fóðurprótein og örveruprótein, en örveruprótein er búið til af örverum vambarinnar. Helst viljum við að AAT sé 80-100 g/kg fyrir mjólkandi kýr. Próteininnihaldið viljum við að sé amk 140 g/kg.
Ef PBV í heyjum er ásættanlegt, en prótein í mjólkinni í lægra lagi, þá er ráð að gefa kjarnfóður sem gefur meira AAT, þá erum við að tala um fiskimjöl. Ef PBV í heyjum er lágt, þá er ráð að nota kjarnfóður með aðgengilegri próteini, til dæmis soja eða repju.
Vanda skal val sláttutíma. Próteininnihald í heyjum breytist eftir því hvenær er slegið, þannig að þroski grasanna skiptir gríðarlegu máli. Veðrið hefur einnig sitt að segja, á köldum vorum er hættara við að grösin fari fyrr í kynvöxt og þá verður hlutfall ómeltanlegs trénis (iNDF) hátt. Áburðargjöf skiptir miklu máli sömuleiðis, það er að nýta búfjáráburðinn vel og huga að brennisteinsáburði þar sem brennisteinn er mikilvægur í próteinmyndun grasanna. Einnig er rétt að nefna kalí áburð, en kalí er mikilvægt uppá blaðvöxt grasa en blöðin eru próteinríkasti hluti fóðursins. Köfnunarefni er síðan grunnurinn að góðu próteini.
Mikilvægt er að stilla sláttuvélarnar rétt, þetta skiptir máli uppá próteininnihald og orkugildi (meltanleika). Mælt er að með að sláttuhæðin sé ekki minna en 8 cm, það er að segja að grasið sé a.m.k. 8 cm hátt eftir að búið er að slá. Uppskerumagnið minnkar sjálfsagt eftir því sem sláttuhæðin er hærri en gæðin á heyjunum aukast, bæði vegna þess að meltanleikinn og próteinið verða hærra en trénið verður minna. Einnig verður verkunin betri þar sem grasið er fjær jörðu og þornar þá hraðar.
Ef verðefni mjólkurinnar eru góð þá bendir það til þess að fóðrunin sé ásættanleg. Mikilvægt er þó að fylgjast vel með þróuninni. Ef rúllur eru gefnar þá geta verðefnin sveiflast og því gott að fylgjast með og mikilvægt að taka heysýni sem endurspegla fóðrunina þar sem breytileiki á milli rúlla getur verið talsverður.
Ef fitan er lág en próteinið eðlilegt, þá væri ráðlegt að athuga með lystugleika fóðurs, mögulega blanda smávegis af þurru eða grófara heyi við fóðrið (auka tréni), einnig væri sniðugt að athuga hvort það sé of mikil sterkja í fóðrinu og athuga með kjarnfóðurskipti eftir því.
Ef prótein og úrefni séu lág, þá er próteinskortur og mikilvægt að athuga hvort próteinhærra gróffóður eða annað próteinríkara kjarnfóður væri hentugra. Fiskimjöl er góður en dýr próteingjafi, soja og repja eru fínir próteingjafar og ódýrari en fiskimjölið. Brugghrat er í boði á sumum stöðum, oftast ókeypis.
Meðaltals próteininnihald mjólkur á landinu er um 3,4 %, gott er að stefna að því að vera alltaf um eða yfir meðaltalinu.
Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga varðandi próteininnihald mjólkur:
- Væri skynsamlegt að kaupa áburðaráætlun sem tekur mið af fyrri heysýnaniðurstöðum?
- Áburður sem skiptir máli uppá próteininnihald grasa eru köfnunarefni, kalí og brennisteinn.
- Hvernig eru verðefnin í mjólkinni, er stöðugleiki?
- Hvernig er úrefnið?
- Væri gáfulegt að kaupa kjarnfóður með meiri próteini eða öðrum próteingjafa?
- Sláttutími og stilling á sláttuvél!
Í lokin er rétt að ítreka mikilvægi þess að láta efnagreina gróffóðrið, taka fleiri heysýni en færri. Reyna að bæta það sem betur mætti fara miðað við heysýnaniðurstöður og velja rétta tegund kjarnfóðurs og rétt magn miðað við hvernig gróffóðrið greinist og tanksýni mælast.
Elin Nolsöe Grethardsdóttir
Gæðaráðgjafi Auðhumlu svf.
24. október 2024
Auðhumla
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.
Lesa meiraGæðaráðgjafar
Hans Egilsson: Sími 861-4775
Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772
Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397
Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770
RM rannsókn: Sími 450-1242