17. mars 2017
Umsögn Auðhumlu svf. um drög að frumvarpi til breytinga á búvörulögum nr. 99/1993 og búnaðarlögum nr. 70/1998
Efni: Umsögn Auðhumlu svf. um drög að frumvarpi til breytinga á búvörulögum nr. 99/1993 og búnaðarlögum nr. 70/1998
Vísað er til draga að frumvarpi til breytinga á búvörulögum nr. 99/1993 og búnaðarlögum nr. 70/1998 sem birt voru til umsagnar á vefsíðu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þann 6. mars síðast liðinn. Frestur til umsagnar var veittur til dagsins í dag.
Hér á eftir fer umsögn Auðhumlu svf. (hér eftir nefnd „Auðhumla“).
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 600 bænda og fjölskyldna þeirra um land allt og hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði bæði á Íslandi og erlendis. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf. með 90,1 % eignarhlut. Samkvæmt viðskiptaskilmálum Auðhumlu ber félaginu skylda til að sækja mjólk til allra þeirra bænda sem eiga í viðskipum við það með reglubundnum hætti allan ársins hring og greiða þeim að lágmarki það verð sem ákveðið er af verðlagsnefnd búvara að skuli vera lágmarksverð á mjólk til framleiðenda. Auðhumla fer þannig í tug þúsundir heimsókna til hráefnissöfnunar á sveitabæi árlega.
Í ljósi þess að tilgangur frumvarpsdraga ráðherra virðist samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu ráðuneytisins öðrum fremur vera sá að styrkja stöðu smærri afurðastöðva og vinnsluaðila vill Auðhumla taka fram að félagið er fylgjandi ráðstöfunum í þá veru enda er það mjög til hagsbóta fyrir eigendur félagsins að sem mest af mjólk sé unnið og selt á markaði sem og að sem flest fyrirtæki komi að vöruþróun á þessum vettvangi. Hafa Auðhumla og dótturfélag þess Mjólkursamsalan ehf. raunar þegar skipulagt starfsemi sína með þeim hætti sem lagt er til að því er viðskipti með hrámjólk og aðskilnað einstakra eininga starfseminnar varðar. Auðhumla telur hins vegar verulega varhugavert að ráðast í gagngerar breytingar á einstökum þáttum þess regluverks sem gildir um skipulag mjólkuriðnaðarins án þess að fram hafi farið mat á nauðsyn slíkra breytinga og áhrifum enda myndar regluverkið eina heild. Raunar telur Auðhumla að hluti þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpsdrögum ráðherra séu til þess fallnar að valda bændum, neytendum og samfélaginu tjóni og varpa fyrir róða þeirri miklu hagræðingu sem náðst hefur í mjólkuriðnaði á umliðnum árum. Enn fremur telur Auðhumla varhugavert að leggja íþyngjandi skyldur á einstaka aðila án þess að þeim sé tryggður grundvöllur samhliða til að standa undir slíkum skyldum.
Með hliðsjón af framangreindu er það einkum þrennt í drögum ráðherra sem Auðhumla telur rétt að gera athugasemdir við að svo stöddu.
Í fyrsta lagi telur Auðhumla varhugavert að fella ákvæði 4. mgr. 13. gr. búvörulaga einangrað brott. Verðtilfærslur hafa um árabil verið við lýði í mjólkuriðnaði og eru hluti af þeim heildstæða lagaramma sem gildir um verðlagningu mjólkur og mjólkurafurða. Til þess að tryggja að verð á mjólk og mjólkurafurðum til neytenda sé hagkvæmt ákveður verðlagsnefnd búvara tilteknum afurðum lága framlegð og öðrum háa. Raunar er það svo að sumar af þeim mjólkurafurðum sem verðlagðar eru af nefndinni standa vart undir framleiðslukostnaði. Ef heimild til verðtilfærslu er felld brott einangrað skapast því veruleg hætta á að mjólkurafurðir með lága framlegð verði ekki framleiddar eða eftir atvikum ekki framleiddar í nægjanlegum mæli til að anna eftirspurn. Í öllu falli er ljóst að afurðastöðvar og aðrir vinnsluaðilar munu þurfa að bregðast við slíkri ráðstöfun með einum eða öðrum hætti.
Í öðru lagi telur Auðhumla að það geti valdið verulegu samfélagslegu tjóni að fella núgildandi ákvæði 71. gr. búvörulaga brott án þess að gera samhliða aðrar ráðstafanir til að tryggja að sú hagræðing sem náðst hefur fari ekki forgörðum. Ef ákvæðið er fellt brott verður sá grundvöllur til hagræðingar sem komið var á fót með lögum nr. 85/2004 í þeim tilgangi að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða afnuminn með tilheyrandi tjóni fyrir bændur og neytendur. Líkt og fram kemur í athugasemdum við viðkomandi ákvæði frumvarpsdraganna hefur ákvæði 71. gr. búvörulaga skilað bæði bændum og neytendum sem og samfélaginu í heild miklum ábata sem hætt er við að varpað verði fyrir róða verði ákvæðið fellt brott. Auðhumla telur því afar brýnt að lagt verði mat á bæði nauðsyn og áhrif þess að fella ákvæðið brott sem og að samhliða verði mælt fyrir um ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ómælt tjón hljótist af.
Í þriðja lagi er það mat Auðhumla að verulega varhugavert sé að leggja einangrað skyldu á markaðsráðandi afurðastöð eða afurðastöðvar til að safna og taka við allri hrámjólk sem henni býðst eða þeim bjóðast frá framleiðendum mjólkur enda slík skylda fordæmalaust inngrip í samningsfrelsi einkaaðila. Vísast er það svo að Auðhumla safnar og tekur nú þegar við allri hrámjólk sem henni býðst frá framleiðendum mjólkur og geta allir framleiðendur mjólkur stofnað til viðskiptasambands við Auðhumlu á grundvelli viðskiptaskilmála félagsins óháð því hvort þeir eru félagsmenn eða ekki. Það er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að upp geti komið sú staða að Auðhumla geti af einhverjum ástæðum ekki safnað og tekið við allri hrámjólk sem félaginu býðst eða slíkt væri ekki viðskiptalega forsvarvaranlegt enda er ekki ráðgert að tryggja samhliða grundvöll til að standa undir slíkri skyldu. Liggur því í hlutarins eðli að slík skylda er óhóflega íþyngjandi og getur verið til þess fallin að valda tjóni. Þá er ekki skilgreint nánar hvaða afurðastöð eða afurðastöðvar teljist markaðsráðandi og hvort forsendur standi hugsanlega til að skipta landinu í afmarkaða landfræðilega markaði sem væri til þess fallið að valda bagalegri óvissu.
Í skýringum við viðkomandi ákvæði frumvarpsdraganna kemur fram að ákvæðið sæki fyrirmynd sína til þess fyrirkomulags sem er við lýði í annars vegar Noregi og hins vegar Hollandi. Í ljósi þess vill Auðhumla árétta að skipulag mjólkuriðnarins í viðkomandi löndum byggir í báðum tilvikum á umfangsmiklu regluverki sem myndar eina heild. Það stenst því illa að taka eitt afmarkað ákvæði úr slíku regluverki án þess að huga samhliða að öllum þáttum þeirrar heildar sem það tilheyrir.
Að endingu vill Auðhumla árétta mikilvægi þess að heildstætt mat á nauðsyn og áhrifum breytinga á skipulagi mjólkuriðnaðarins eða einstökum þáttum þess fari fram áður en lengra er haldið. Ef ráðist er í einangraðar breytingar á því skipulagi sem við lýði er að óathuguðu máli er veruleg hætta á því að bæði bændur og neytendur sem og samfélagið í heild verði fyrir tjóni. Auðhumla áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum síðar ef þess gerist þörf.
Til baka