Verð á umframmjólk
Ágætu framleiðendur:
Búið er að yfirfara greiðslugetu okkar á umframmjólk frá og með 1. apríl 2008. Verð á umframmjólk helst óbreytt og verður að lágmarki 35 kr per lítra út þetta verðlagsár.
Skýringar:
Töluverðar sviptingar hafa orðið á verðlagi mjólkurafurða frá því um áramót þegar gefið var út að verð á umframmjólk yrði að lágmarki 35 kr per lítra.
Við verðlagningu á umframmjólk er gert ráð fyrir að hún verði 5 milljónir lítra á þessu verðlagsári. Mjólkinni er umbreytt í smjör, undanrennuduft og skyr. Smjörið fer allt á markað í Evrópusambandinu þar sem við höfum tollfrjálsan kvóta. Undanrennuduftið er selt um allan heim og skyrið er flutt til Bandaríkjanna og Bretlands. Verð á smjöri og undanrennudufti sveiflast töluvert og hefur lækkað frá áramótum um tæplega þriðjung. Verð á skyri er hins vegar stöðugt og hátt. Markmið okkar er að auka hlutfall skyrs á kostnað undanrennudufts. Á árinu 2007 voru flutt út 138 tonn af skyri og á þessu ári er gert ráð fyrir að flytja út á milli 250-300 tonn af skyri. Raunhæft er að gera ráð fyrir að útflutningurinn geti tvöfaldast á á skyri á hverju ári á næstu árum að lágmarki.
Ef unnið væri skyr úr þeim 5 milljónum lítra af umframmjólk sem við áætlum að verði framleidd þá svarar það til um 1.700 tonna. Miða við núverandi markaðsverð og gengi myndi það þýða að við gætum greitt um 50 kr á hvern lítra umframmjólkur. Það er því mikilvægt að leggja áherslu á að markaðsfæra og selja sem mest af skyri erlendis.
Smjörið, undanrennuduftið og skyrið er selt í evru, sterlingspundi og bandaríkjadollar. Gengi þessara gjaldmiðla hefur hækkað verulega frá áramótum og þannig hefur dollar og pund hækkað um 23% en evran um 33%. Þrátt fyrir gengislækkun krónunnar þá nær hún ekki að vega uppi á móti erlendum verðlækkunum. Þá hafa einnig orðið verulegar kostnaðarhækkanir á innlendum og erlendum kostnaðarliðum á borð við flutningskostnað, umbúðir, íblöndunarefni, laun og orku sem eru á bilinu 10-20% frá síðustu áramótum. Til gaman má geta þess að ef afurðaverð erlendis hefði haldist óbreytt væri greiðslugeta okkar um 43 kr/lítra.
Næst verður verð á umframmjólk endurskoðað þann 1. júlí 2008.
Auðhumla svf
Auðhumla
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.
Lesa meiraGæðaráðgjafar
Hans Egilsson: Sími 861-4775
Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772
Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397
Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770
RM rannsókn: Sími 450-1242