Greiðslur til framleiðanda
Greiðslufyrirkomulag til mjólkurframleiðanda
Lágmarksverð til mjólkurframleiðenda eru samanlagðar greiðslur frá mjólkurafurðastöð og greiðslum úr ríkissjóði, svokölluðum beingreiðslum. Heildarfjárhæðir beingreiðslna eru nú bundnar í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem tók gildi 19. febrúar 2016 (með síðari breytingum) en afurðastöðvarverð er ákveðið af verðlagsnefnd búvöru. Þar að auki munu koma til greiðslur frá ríkinu sem kynbóta- og þróunarfé, gripagreiðslur og óframleiðslutengdur stuðningur.
Greiðslur úr ríkissjóði
Í samningnum um starfsskilyrði nautgriparæktar er tiltekið hve háar fjárhæðir verða greiddar í beingreiðslur, kynbóta- og þróunarfé, gripagreiðslur og óframleiðslutengdan stuðning á samningstímanum.
Heildarfjárhæðir beingreiðslna ríkisins eru bundnar við fastar upphæðir á hverju verðlagsári samningstímans óháð heildargreiðslumarki. Þannig lækka beingreiðslur á lítra þegar greiðslumark hækkar milli verðlagsára en hækka þegar greiðslumark lækkar milli verðlagsára.
Reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda er gefin út á hverju ári, þar sem gefið er út greiðslumark framleiðsluársins, beingreiðslur og aðrar stuðningsgreiðslur.
Greiddar eru beingreiðslur út á greiðslumark annars vegar og innvegna mjólk hins vegar samkvæmt reglugerð sem finna má hér
Að því marki, sem beingreiðslur ganga ekki út eftir uppgjör innan greiðslumarks, verður greitt samkvæmt liðum A og B hlutfallslega út á heildarframleiðslu umfram greiðslumark hvers lögbýlis.
Ef mjólkurframleiðsla verður minni en sem nemur heildargreiðslumarki þannig að beingreiðslur ganga ekki út er ónotuðum beingreiðslum jafnað út á allt innvegið mjólkurinnlegg greiðslumarkshafa.
Greiðslur afurðarstöðvanna
Efnainnihald viðmiðunarmjólkur er meðalefnainnihald í mjólk á landinu síðastliðin þrjú verðlagsár. Nýtt efnainnihald viðmiðunarmjólkur reiknast því út í byrjun hvers verðlagsárs.
Afurðastöð greiðir framleiðanda fullt verð fyrir 1. flokks mjólk innan greiðslumarks samkvæmt gildandi verðlagsgrundvelli á innleggsdegi.
Frá 1. janúar 2014 hafa afurðastöðvarnar greitt jafnt hlutfall eftir fitu og próteini (50/50) en frá 1993 og fram til þess tíma var framleiðendum greitt eftir efnainnihaldi mjólkur, þ.e. 25% miðað við fituinnihald og 75% miðað við próteininnihald meðalmjólkur.
Sjá þróun á afurðaverði mjólkur
Síða uppfærð: 30.10.2024