Aðbúnaður mjólkurkúa

Það er mjög mikilvægt að mjólkurframleiðendur þekki reglugerð nr. 438/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra. Reglugerðin er í raun góð vísbending um hvernig á að búa að nautgripum þannig að þeim líði sem best og hvernig þeim er tryggð góð heilsa.

Nokkur meginatriði þarf að hafa í huga varðandi vellíðan kúa og mjög auðvelt er að framfylgja þeim. Samkvæmt viðauka II í reglugerð nr. 438/2002 skal hiti að jafnaði ekki vera hærri en 15°C hjá fullorðnum nautgripum. Mjólkurkúm líður vel við hitastig niður að frostmarki. Ungir kálfar þurfa að vera þannig staðsettir í fjósinu að þar sé heldur hlýrra ef hitastigið er mjög lágt í fjósinu.

Því lægri sem lofthitinn er því auðveldara er að halda loftraka innan viðunandi marka. Loftraki skal vera innan við 75% við 15°C og má vera allt að 90% við 0-5°C. Loftræsting þarf að vera þannig að ekki verði dragsúgur. Mikill loftraki og hátt hitastig getur valdið mikilli fjölgun á júgurbólgusýklum í umhverfi kúnna.

Lýsing í fjósum er mjög vanmetin og stundum beinlínis röng. Kýr nýta fóðrið best og gefa mestar afurðir ef í fjósinu er góð lýsing í 16 klukkustundir á sólarhring. Góð lýsing hefur jákvæð áhrif á frjósemi kúnna, bætir vinnuaðstöðuna við þrif, mjaltir og eftirlit með gripunum, t.d. beiðslisgreiningu. Hins vegar er mjög óheppilegt að hafa mikið ljós á nóttunni. Næturlýsing skal ekki vera meiri en svo að ratljóst sé. Of mikil lýsing allan sólarhringinn truflar líkamsstarfsemi kúnna.

Kýr verða að hafa aðgang að miklu og góðu vatni. Það er góð og sjálfsögð regla að huga að því daglega hvort vatnsdallar séu í lagi og gefi nægilega mikið vatnsstreymi.

Legusvæði allra kúnna þarf alltaf að vera þurrt og hreint. Undirburður, hálmur eða spænir, er góður og hjálpar til við að halda kúnum hreinum. Mikilvægt er að spænir, sem notaðir eru í undirburð, séu hitameðhöndlaðir eða á annan hátt sótthreinsaðir vegna þess að spænir, sem koma beint úr trésmiðju, geta valdið júgurbólgu vegna þess að fínar agnir berast upp í opna spena. Það er góð regla að ganga um fjósið tvisvar á dag og hreinsa bása. Þá gefst um leið gott tækifæri til að huga að vellíðan kúnna, athuga beiðsliseinkenni, kynnast kúnum og venja þær við umgengni í legubásafjósum.

Til þess að kúnum líði vel og hreinlætis sé nægilega gætt við mjaltir er mikilvægt að klippa kýr og snyrta júgur eftir þörfum.

Að koma í veg fyrir júgurbólgu

Það eru ekki margir sýklar sem yfirleitt valda júgurbólgu. Það getur verið gott að skipta þeim í tvo flokka.

Fyrri flokkinn má kalla smitandi júgurbólgusýkla því þeir eru fyrst og fremst í sýktum júgrum og spenum, sárum á júgri, spenum, klaufum, hæklum og milli júgurs og læris. Þeir geta einnig verið í miklum mæli í leifum af föstum hildum. Algengasti smitandi sýkillinn er Staphylococcus aureus en mun sjaldgæfari eru streptókokkarnir dysgalactiae og agalactiae. Til þess að takast á við þessar sýkingar og hindra útbreiðslu þeirra þarf að finna sýkt dýr, meðhöndla júgur þeirra og sár og mjólka þær síðast. Erfiðast er að fást við S. Aureus vegna þess að hann hefur tilhneigingu til að dyljast í júgurvefnum og finnst þess vegna ekki alltaf í mjólkursýnum. Á sama hátt næst oft á tíðum ekki til hans með fúkkalyfjum. S. aureus verður oft ónæmur fyrir penisillíni og fleiri fúkkalyfjum. Besta ráðið í baráttu við S. aureus er oftar en ekki að fella sýktar kýr. Það ætti alltaf að taka til athugunar þegar um penisillínónæmar sýkingar er að ræða eða ef kýrin fær endurteknar sýkingar eftir tvær meðferðir.

Annar flokkur júgurbólgusýkla eru umhverfisbakteríur. Þeir alvarlegustu eru E. coli og Str. uberis. Það þarf talsvert mikið af þessum sýklum til þess að valda júgurbólgu svo það er mikilvægast að koma í veg fyrir vöxt þeirra í umhverfinu. Hreinlæti, góð loftræsting, lítill loftraki og lágur hiti er bestur til þess að koma í veg fyrir vöxt þessara baktería. Best er að hiti í fjósinu sé 10- 13°C og loftraki undir 80%.

Segja má að ein tegund sýkla sé millistig milli smitandi sýkla og umhverfisbaktería. Það eru svokallaðir kóagulasa neikvæðir stafýlókokkar, stundum kallaðir K-, KNS eða CNS. Þessar bakteríur halda sig í nærumhverfi dýranna, á slímhúð, í hári og á húðinni, þar með talið á spenum og í spenagangi. Það verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir einhverjar sýkingar með KNS en hreinlæti, góð fóðrun og vandaðar mjaltir draga úr hættunni.

Mjaltir eru mikilvægar. Spenar og júgur eiga að vera hrein og þurr í upphafi mjalta. Það á að vera nýr þvottaklútur fyrir hverja kú og fleiri en einn klútur fyrir óhreinar kýr. Best er að þvo klútana að minnsta kosti daglega í þvottavél við 90°C. Mjaltir skal hefja strax að loknum þvotti og skoða mjólkina úr hverjum spena með því að mjólka fyrst í hreytibolla með svartri plötu. Þannig getur tekist að uppgötva júgurbólgu á fyrstu stigum. Gott er, þar sem því verður við komið, að mjólka heilbrigðar kvígur og kýr fyrst og enda á kúm með háa frumutölu.

Mjaltabúnaður er mikilvægur og það er mikilvægt að sem minnst loft sleppi inn þegar mjaltatækin eru sett á kýrnar. Loft, sem sleppur inn í eitt mjaltahylki, getur valdið því að mjólk þrýstist inn í spena í næsta hylki. Mjaltabúnaður þarf að vera undir reglulegu eftirliti og það þarf að fylgjast með að soghæðin sé alltaf rétt. Skipta þarf um spenagúmmí eftir þörfum.

Klaufhirða er mjög vanrækt á Íslandi. Illa hirtar og óklipptar klaufir geta valdið ýmsum vanda. Kýrnar verða óstyrkar í gangi og eiga bágt með að standa upp og það getur valdið spenastigi. Beiðsliseinkenni verða dulin og fótamein geta valdið ígerðum, bæði í klaufum og í legusárum sem koma vegna þess að kýrnar velja frekar að liggja við vondar aðstæður en að standa á sárum klaufum. Sú vanlíðan, sem fylgir vanhirtum klaufum, getur hæglega gert kýrnar næmari fyrir júgurbólgu.

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242