Frumutala í mjólk
Algengasti sjúkdómurinn sem bændur þurfa að eiga við í kúahjörðum er júgurbólga. Júgurbólga er gríðarlega kostnaðarsamur sjúkdómur – vegna lyfja- og dýralæknakostnaðar og afurðataps, en einnig vegna þeirra vinnu sem júgurbólgukýr útheimta.
Frumutala í mjólk segir til um júgurheilbrigði einstakra kúa og heilbrigðisástand hjarðarinnar í heild. Frumutalan er mælikvarði á hve mikill fjöldi hvítra blóðkorna og þekjufruma eru í hverjum millilítra mjólkur. Þessir þættir segja til um hvort sýkingu sé að finna í júgrinu eða ekki, en hvítum blóðkornum fjölgar verulega ef sýking sé til staðar.
Þriggja mánaða faldmeðaltal í tankmjólk þarf að vera lægri en 400.000 frumur/ml til að standast gæðakröfur, en greitt er 2% úrvalsmjólkurálag ef fruman mælist undir 200.000 frumur/ml í faldmeðaltali innan mánaðar, að því gefnu að líftala sé undir 20 þús., fríar fitusýrur séu í lagi og engin lyf mælast í mjólkinni. Erlendis er víða miðað við að heilbrigði sé ábótavant ef fruman mælist hærra en 150.000 frumur/ml. Hérlendis er viðmiðið heldur hærra, en rétt er að reyna alltaf að hafa sem lægsta frumutölu í mjólkinni.
Afurðir og frumutala fylgjast að. Í bókinni Nautgriparækt eftir Snorra Sigurðsson og fleiri, er tekið fram að afurðamagn kúa með um eða undir 50.000 frumur/ml að meðaltali á mjaltaskeiðinu er 5% meira heldur en hjá þeim kúm sem eru með frumu í kring um 100.000 frumur/ml og afurðatap frá 100.000 upp í 200.000 frumur/ml er 4% til viðbótar. Hér er bara verið að tala um muninn á hve mikið kýrin mjólkar, ekki þann auka kostnað sem síðan getur fylgt í kjölfarið ef sýking bætist við. Það er því eftir miklu að slægjast.
Einu sinni til tvisvar á ári eru tanksýni erfðaefnisgreind (PCR), það eru svokölluð B-sýni. Í þeim niðurstöðum fær bóndinn upplýsingar um hvernig bakteríustaðan er í fjósinu og ættu menn að nýta sér þær niðurstöður í bústjórninni. Í erfðaefnisgreiningu eru 15 mismunandi bakteríur sem athugað er með hvort finnast í mjólkinni. Einnig kemur þar fram hvort ónæmi gagnvart sýklalyfjum sé í hjörðinni. Mælt er með að PCR mæla kýrsýni sem mælast með frumutölu um eða yfir 400.000 frumur/ml til þess að geta meðhöndlað viðkomandi kú með réttum sýklalyfjum. Þegar bændur fá niðurstöður B-sýna sendar í tölvupósti fylgir einnig blað með skýringum á hver sé líkleg ástæða þess að þessar ákveðnu bakteríur finnast og hverju skal breyta og bæta. Blaðið fylgir hér neðar. Mikilvægt er að ræða við dýralækni búsins þegar PCR niðurstöður liggja fyrir og búa til aðgerðaráætlun sem miðar að því að ráðast á algengustu bakteríurnar og svo koll af kolli.
En hvað ber helst að hafa í huga til að lækka frumutöluna? Hreinlæti, vönduð vinnubrögð og reglulegt eftirlit sem og viðhald á mjaltatækjum eru grunnforsendur þess að lækka frumutölu. Hreinlæti skiptir höfuðmáli, sýkingar og óhreinindi haldast í hendur. Spenaendinn er upphafspunktur langflestra júgurbólgusýkinga. Varast skal að bera smit á milli kúa með tækjum, fötum og klútum. Ekki nota sama þvottaklútinn á fleiri en eina kú. Raða kúm í mjaltir eftir frumutölu þar sem kýr með lága frumutölu mæta fyrstar og sýktar kýr koma síðastar. Ef ekki er hægt að viðhalda slíkri röðun þarf að skola mjaltatækin með heitu vatni innan sem utan eftir að búið er að mjólka frumuháar kýr. Í mjaltaþjónum þarf að hafa stillingar þannig að frumuháar kýr fari í frátöku og passa skal að mjaltaþjónninn fari í þvott eða heitt skol eftir slíkar mjaltir. Mikilvægt er að undirbúa kýrnar vel áður en tækin eru sett á spenana, kýrnar þurfa tíma til að byrja að selja og passa skal upp á að þurrmjólka ekki.
Hafa skal í huga að spenaendinn er opinn í nokkra stund eftir mjaltir og kýr eiga það til að vilja leggjast strax eftir mjaltir. Þess vegna skiptir það miklu máli að legusvæðið sé hreint og þurrt, skafa þarf svæðið að minnsta kosti tvisvar á dag og ef frumutöluvandi er í fjósinu er gott að skafa oftar og nota sótthreinsandi efni í básana – en fyrst þarf að fjarlægja skítinn, sótthreinsandi efni gerir ekkert gagn í bland við skít. Mælt er með að nota spenadýfu, frekar en sprey, þar sem dýfan er þykkari og loðir betur við spenana. Gott er að nota joðdýfu ef frumuvandi er í fjósinu.
Reglubundið viðhald og eftirlit með mjaltabúnaði er afar mikilvægt. Vanstillt tæki, sogskiptar sem vinna ekki rétt, óhreinindi sem hefta lofthreyfingu í soglögnum, mjaltakrossar sem eru óþéttir, sogdælur sem eru of kraftlitlar, lagnir sem eru með röngum halla eða ekki rétt staðsettar – allt eru þetta atriði sem geta haft áhrif til hins verra og viðhaldið hárri frumutölu. Vísbendingar um að eitthvað sé að í tækjabúnaði er ef mikið er um afspark, ef þarf að hefta margar kýr og ef hlutfall ólokinna mjalta er hátt í mjaltaþjónum.
Einnig er mikilvægt að fylgjast með spenaendum, en þó skal hafa í huga að líffræðileg lögun spena skiptir máli, oddmjóir, langir spenar eru líklegri til að hafa útdregna slímhimnu og þarf ástæðan fyrir því ekki að vera sú að eitthvað sé að mjaltatækjunum. Einnig eru nytháar kýr og kýr með hátt mjólkurflæði, sem og kýr sem eru lengi að mjólkast líklegri til að hafa útdregna slímhimnu. Ef hlutfall kúa í fjósinu með útdregna slímhimnu er um eða yfir 20%, þá er ástæða til að bregðast við og kalla til þjónustuaðila.
Í lokin er rétt að minnast á mikilvægi þess að hugsa vel um kýr í geldstöðu. Algengt er að kýr séu frumuháar þegar þær eru nýbornar. Meta þarf hvert tilvik fyrir sig, en margir meðhöndla kýrnar á geldstöðunni. Þá er lítil sem engin næring fyrir bakteríurnar þar sem engin mjólk er í júgrinu, lyfið fær frið til að vinna og leysist hægt upp. Geldstöðulyf virðast nokkuð árangursrík til að vinna bug á dulinni júgurbólgu, en ef kýr hefur verið með sveiflukennda frumutölu á mjaltaskeiðinu, þá er eitthvað sem bendir til þess að hún gæti verið með dulda júgurbólgu. Geldstöðulyf eru með langan útskolunartíma, lyfjamæla skal mjólk áður en kýrin er mjólkuð saman við eftir geldstöðu hafi hún fengið slík lyf. Fái kýr ítrekaðar sýkingar er rétt að íhuga hvort sé ekki rétt að leyfa þeim að fara í kaupstaðarferð – júgurbólga er dýr sjúkdómur og sársaukafullur.
Túlkun niðurstaðna úr PCR júgurbólgugreiningu einstakra kúa
Heimildir:
Elin Nolsöe Grethardsdóttir og Snorri Sigurðsson. (2021). Mjaltir, mjólkurgæði og júgurheilbrigði. Snorri Sigurðsson (ritstj.), Nautgriparækt (262-288). Útgefandi Snorri Sigurðsson.
Óþekktur höfundur, 2022. Værd at vide om celletal i mælken og hvordan du reducerer det. Tekið af vef Landbrugsinfo.dk, Værd at vide om celletal i mælken og hvordan du reducerer det
Snorri Sigurðsson, 2016. Er frumutalan of há?. Tekið af vef Bændablaðsins, Er frumutalan of há? - Bændablaðið.
Snorri Sigurðsson, 2015. Lægri frumutala með hreinni kúm. Bændablaðið, 22. tbl. bls. 42.
Elin Nolsöe Grethardsdóttir,
Gæðaráðgjafi Auðhumlu svf.
13. maí 2025