Úrefni í mjólk

Tanksýnin sem tekin eru í hverri losun, og mæld amk. einu sinni í viku, gefa góðar og mikilvægar upplýsingar um fóðrun kúnna og hvort breyta mætti til og gera betur í þeim efnum. Gott er að skoða sýnin yfir ákveðið tímabil og fylgjast með mögulegum breytingum. Það eru sérstaklega fríar fitusýrur, fita, prótein og úrefni sem gott er að fylgjast vel með. En í þessum pistli ætlum við aðallega að skoða úrefni í mjólk.

Úrefni er ekki meðal þeirra efna mjólkur sem hafa áhrif á hvað bændur fá greitt fyrir mjólkina, heldur er úrefnamæling gott tæki í bústjórnina og gefur ykkur góðar vísbendingar um orku- og próteinfóðrun.

Úrefni er í grunninn N (nítur/köfnunarefni) sem er aðal bygginingarefni próteina. Úrefni er því N sem losnar í vömbinni og örverur vambarinnar ná ekki að nýta.

Við viljum helst sjá úrefni liggja á milli 3 og 6 mMol/l. Ef úrefnisinnihaldið fer yfir 6 mMol/l er það vísbending um að offóðrun á próteini eigi sér stað. Gott er þó að skoða aðra þætti mjólkurinnar einnig. Ef fríar fitusýrur eru á góðu róli, það er mælast vel undir 0,9 mMol/l og próteinhlutfall mjólkurinnar er gott, þá er það vísbending um að fóðrið sé með næga orku, en offóðrun á próteini eigi sér stað. Auðvelt ætti að vera að laga það með því að skipta yfir í kjarnfóðurblöndu með minna innihaldi hrápróteins.

Ef insvegar staðan er þannig að úrefnið í mjólkinni er hátt, en próteinhlutfall mjólkurinnar er lágt, þá er það vísbending um að offóðrun á próteini sé vandamál, en jafnframt skortur á orku. Það vantar orku til að nýta fóðurpróteinið betur. Í slíkum tilvikum þarf að skoða hvernig samsetning og verkun gróffóðursins er. Framleiðsla própíonsýru í vömb er mikilvæg fyrir m.a. upptöku glúkósa í blóði, en glúkósi er mikilvægt hráefni fyrir framleiðslu mjólkurpróteina. Orka er lykillinn að góðri própíonsýru framleiðslu í vömbinni og hefur jákvæð keðjuverkandi áhrif á próteinframleiðslu. Því er mikið gróffóðurát algjört lykilatriði, en gróffóðurgæðin skipta auðvitað miklu máli. Gott er að hafa í huga að ef gróffóður er verkað blautt, þá er próteinið í fóðrinu lausara og það eykur líkurnar á háu úrefnisinnihaldi.

Ef úrefnisinnihald mjólkurinnar er lágt, en próteininnihald mjólkurinnar er hátt, þá erum við að tala um próteinskort í fóðri, en næga orkufóðrun, jafnvel er gefin orka umfram þarfir. Í slíkum tilfellum þarf að bæta próteini í fóðri, til dæmis með því að gefa próteinríkara kjarnfóður.

Ef hinsvegar bæði úrefnisinnihald og próteininnihald mjólkurinnar eru lág, þá er að eiga sér stað vanfóðrun á bæði próteini og orku. Líklega sjá menn þar súrdoða eða mikið átleysi.

Ástæðan getur verið að heyverkun hafi ekki tekist sem skyldi og heyið ólystugt. Ef ekki eru til birgðir af betur verkuðu heyi, er gott að athuga hvort átið eykst með því að setja melassa út á heyið til að auka lystugleikann og þar með átið. En einnig þarf að huga að kjarnfóðurtegund og mögulega breyta til þar.

En hvers vegna þurfum við að skipta okkur af úrefnisinnihaldi mjólkurinnar? Jú, vegna þess að bæði of lágt úrefni og of hátt úrefni hefur áhrif á frjósemi hjarðarinnar. Öll viljum við hafa góða frjósemi í hjörðinni, enda algjört undirstöðuatriði. Ef úrefni er lágt beiða kýrnar ekki. Ef úrefni er hátt, er hætta á því að kýrnar haldi ekki, þó þær sýni beiðsli.

Annað sem offóðrun á próteini, og þar með hátt úrefni, hefur áhrif á, er upptaka sumra steinefna eins og magnesíum. Magnesíum skiptir lykil máli þegar kemur að kalkupptöku eftir burð, og þar með heilsufar kúnna varðandi doða, almennum efnaskiptum o.fl.

Lágt úrefni hefur mjög hamlandi áhrif á vambarstarfsemina, þar af leiðandi éta kýrnar minna og framleiðslan minnkar. Það er því mikilvægt að halda úrefninu á góðu róli, best er að gildin liggi milli 3 og 6 mMol/l eins og áður hefur komið fram.

 

Elin Nolsöe Grethardsdóttir

Gæðaráðgjafi Auðhumlu svf

 

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242