Mjólkurflutningar

Flutningur á mjólk frá mjólkurframleiðendum til afurðastöðvar fer fram í sérútbúnum flutningatækjum með löggiltum mælingabúnaði.

Mjólkurbílstjórinn gegnir viðamiklu hlutverki við mjólkurflutningana. Hann skal í upphafi starfsferils hljóta viðeigandi þjálfun og sækja námskeið fyrir mjólkurbílstjóra sem fjallar um meðferð mjólkur.

Bílstjórinn er mikilvægur tengiliður milli mjólkurframleiðanda og afurðastöðvar. Honum ber að sýna góða umgengni í hvívetna. Hann á að taka sýni úr mjólkurtanki, meta ástand mjólkurinnar eins og hægt er, skoða hitastig og dæla mjólkinni á bílinn. Hann þarf að tryggja rétta sýnatöku, rétta skráningu og að farið sé eftir settum reglum.

Mjólkurbílstjórinn og mjólkurframleiðandinn eru nánir samstarfsaðilar. Milli þeirra þarf að ríkja trúnaðartraust og skýr verkaskipting. Báðir aðilar eru bundnir af reglum um meðferð matvæla og hafa ákveðnar skyldur, hvor á sínu sviði.

Aðgengi, aðstaða og tankrými

Akstursleið mjólkurbifreiðar heim á hvert býli þarf að vera hindrunarlaus. Allar tafir á ferð mjólkurbílsins eru kostnaðarsamar og valda öðrum innleggjendum vanda. Á vetrum þarf að gæta þess að skilja ekki eftir tæki eða annað við heimreiðar eða á leið mjólkurbílsins þannig að það fenni að þeim og valdi vandræðum. Gott athafnapláss þarf að vera á hlaði mjólkurhúss, auk þess þarf hlaðið að vera þrifalegt, malar- eða malbikslagt.

Aðgengi bílstjórans í mjólkurhúsið ásamt góðri lýsingu þarf að vera í lagi. Plasthólkur og miðahólf þurfa að vera í mjólkurhúsi fyrir innleggsmiða og póst. Tankrými þarf að vera fyrir hendi því ekki er gert ráð fyrir aukaferðum til að sækja mjólk. Lágmarksrými skal miðast við að mjólk sé sótt þrisvar í viku.

Að öllu jöfnu skal mjólk sótt þrisvar í viku til hvers framleiðanda.

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242