Lyfjaleifar í mjólk valda árlega allnokkru tjóni, bæði hjá þeim mjólkurframleiðanda sem í því lendir og einnig hjá Auðhumlu svf. Í öllum tilvikum er um óviljaverk að ræða en því miður er það árlegt vandamál að slíkum óhöppum fjölgar á vorin og á sumrin þegar bændur eru önnum kafnir við vorverk og heyskap. Mikil áhersla er lögð á að öll mjólk sem sótt er til bænda sé lyfjamæld á mjólkurbíl áður en henni er dælt inn í mjólkurstöð. Ef lyf mælast í mjólk er henni umsvifalaust og undantekningarlaust fargað.
Algengustu ástæður þess að lyfjaóhöpp eiga sér stað í fjósum eru mannleg mistök. Kýr sem eru á sýklalyfjum eru mjólkaðar í ógáti af einhverjum ástæðum og mjólkin fer í tankinn. Nokkuð algeng mistök eru að vitlaus kýr hafi verið sprautuð með sýklalyfi, í þeim tilvikum er það nær undantekningalaust þannig að kýrin sem var sprautuð var með svipað númer og veika kýrin – og/eða eins á litinn. Algengt vandamál er einnig að þvottur á kerfinu hafi ekki verið nægur eftir að kýr á sýklalyfi hafi verið mjólkuð, til dæmis ekki verið notað nógu heitt vatn eða stilling á kerfum verið röng. Þetta síðastnefnda á oftast við í fjósum með mjaltaþjóni.
Það er líka of algengt að mjólkurframleiðandi horfi um of á uppgefinn útskolunartíma viðkomandi sýklalyfs og setji mjólk úr viðkomandi kú í mjólkurtankinn þegar útskolunartíminn “á að vera liðinn” án þess að kanna það frekar. Því miður er það furðulega oft sem lyf mælast í kúm þó nokkuð eftir að útskolunartími er liðinn. Þess vegna ætti aldrei að setja mjólk í tankinn úr kú sem nýlega hefur verið á sýklalyfi, nema mæla mjólkina fyrst.
Til þess að minnka líkurnar á að lyfjamenguð mjólk verði send frá framleiðanda er mikilvægt að menn skrái strax í tölvukerfin þegar kýr hefur verið meðhöndluð. Einnig er mikilvægt að kýr á lyfjakúr séu rækilega vel merktar, til dæmis með litríku bandi um báða afturfætur og á hala.
Margir mjólkurframleiðendur eiga Delvo tæki sem notuð eru heima á búunum til að lyfjamæla mjólk, hvort sem það er mjólk úr tank eða mjólk úr kú sem er að klára útskolunartímann eftir að hafa verið á sýklalyfi. Þessi tæki eru stórsniðug, mjög einföld í notkun og ættu að vera til hjá öllum mjólkurframleiðendum. Þessi einföldu tæki kosta um 20.000 kr og fást hjá gæðaráðgjöfum Auðhumlu svf.
Tækið er í raun tímastilltur hitaplatti, en til þess að geta nota tækið til að mæla lyf fær bóndinn ampúllur með æti. Ætið nemur öll algengustu sýklalyf sem notuð eru í mjólkurframleiðslu. Ampúllurnar eru ókeypis og eru sendar til framleiðanda með mjólkurbíl þegar óskað er eftir þeim við gæðaráðgjafa Auðhumlu svf. Delvo tækinu fylgja nákvæmar leiðbeiningar og aflestur á ampúllum er nokkuð einfaldur og snýst um að fara eftir ákveðnum litakóða. Ætið er fjólublátt á litinn og breytist ekki, eða lítið, ef lyf eru í mjólkinni. Hinsvegar verður ætið gult á litinn ef engin lyf mælast í mjólkinni og þá er bóndanum óhætt að mjólka kúna samanvið, nú eða senda mjólkina frá sér ef það var tankmjólk sem var mæld. Mælingin með þessu einfalda tæki tekur rúmar þrjár klukkustundir.
Myndin hér að neðan sýnir þessa litakóða sem notaðir eru til aflestrar á ampúllunum, fjólublátt æti segir að mjólkin sé lyfjamenguð og gult æti segir okkur að mjólkin er hrein. Ef menn eru efins má alltaf senda gæðaráðgjöfum mynd af ampúllum og geta þeir þá leiðbeint mjólkurframleiðanda um aflesturinn.
Ampúllur sem ekki eru í notkun skal geyma í kæli og það þarf að fylgjast með “best fyrir” dagsetningu á kassanum.
Undirrituð hefur tekið eftir að stundum eiga menn það til að setja of mikla mjólk í ampúllurnar, en það getur gefið ranga niðurstöðu. Myndirnar hér að neðan sýna hversu mikla mjólk eigi að nota til þess að niðurstöðurnar verði marktækar.
Æskilegt væri að sem flestir myndu eiga og nota Delvo tæki. Eins og fram hefur komið er tækið einstaklega einfalt í notkun og mikið öryggi felst í notkun þess. Bændur sem hafa lent í því að senda frá sér lyfjamengaða mjólk kaupa mjög oft Delvo tæki í beinu framhaldi og bölva því jafnframt að hafa ekki verið búnir að koma sér upp einhverskonar reglubundnu eftirliti heima á búinu þegar vitað er að sýklalyf séu í notkun í fjósinu. Gæðaráðgjafar Auðhumlu svf. mæla eindregið með að bændur temji sér reglubundið eftirlit heima á búnum – það er að tankmjólk sé mæld áður en hún er send með mjólkurbílnum og að mjólk úr kúm á lyfjakúr sé alltaf mæld áður en kýrin er mjólkuð í tankinn. Það er aldrei of varlega farið þegar sýklalyf eru annarsvegar.
Gæðaráðgjafar Auðhumlu svf. eru alltaf tilbúnir að leiðbeina um notkun Delvo tækisins og aflestur á niðurstöðum þess ef óskað er eftir.
Samantekt:
- Vertu alveg viss um að rétt kýr sé meðhöndluð í hvert skipti. Gáðu aftur!
- Merktu vel þann grip sem verið er að meðhöndla, t.d. með litríku bandi á afturfótum og á hala.
- Skráðu viðkomandi grip strax til frátöku í tölvukerfi mjaltakerfis/mjaltaþjóns. Gáðu aftur hvort númerið sem þú skráir sé ekki alveg örugglega rétt!
- Notaðu Delvo tækið alltaf til að kanna hvort mjólk úr meðhöndluðum grip sé í lagi þegar útskolunartíma á að vera lokið.
- Notaðu Delvo tækið alltaf til að kanna hvort tankmjólkin sé ekki örugglega í lagi þegar meðhöndlaður gripur hefur verið settur saman við aðra mjólk til sölu.
Elin Nolsöe Grethardsdóttir
Gæðaráðgjafi Auðhumlu svf.
06. september 2024